top of page

1. Að hvaða leyti er Pilates frábrugðið öðrum æfingakerfum?

 

Hver æfing virkjar kviðvöðvana og aðferðin leggur áherslu á að styrkja svæðið sem kallað er ‘powerhouse’ (aflstöðin) – kviðinn, mjóhrygginn, ytri og innri lærvöðvana og rassinn. Markmið Pilates er að lengja, styrkja og stæla líkamann án þess að vöðvarnir verði fyrirferðarmeiri.

 

2. Eru einungis notuð tæki í Pilates?

 

Nei. Joseph H. Pilates hannaði öll þau tæki sem byggjast á gormamótstöðu þannig að þau væru notuð með gólfæfingakerfinu og þess vegna er kerfið í heild alltaf samspil tækja annars vegar – Reformer, Wunda Chair, High Chair, Ladder Barrel, Spine Corrector, Half Barrel, Cadillac – og gólfæfinga hins vegar.

 

3. Hvers vegna er svo lítið um að æfingar séu endurteknar? 

 

Minna ER meira! Hver Pilates-æfing er aðeins gerð þrisvar, fimm eða tíu sinnum. Æfingarnar eru þaulhugsaðar þannig að þær skili sem mestum og nákvæmlega réttum árangri og það gerir endurtekninguna ónauðsynlega. 

 

4. Hvers vegna er litið á Pilates sem þjálfunarkerfi fyrir líkama og huga? 

 

Pilates er þjálfunarkerfi byggt á greind. Hugurinn er sístarfandi gegnum sérhannað kerfi æfinga og því engin hætta á að hann fari á stefnulaust flakk við endalausar endurtekningar. Meðan þú ert með hugann við það hvernig líkaminn hreyfist má segja að þú stundir fullkomna hug- og líkamsrækt. 

 

5. Hversu fljótt má búast við að árangur fari að skila sér?

 

Það er nokkuð einstaklingsbundið en þó finna flestir til aukinnar vellíðunar eftir aðeins fáeina tíma. Ef þú sinnir æfingunum jafnt og þétt öðlastu aukinn styrk á powerhouse’-svæðinu og færist nær því marki að komast í verulega gott form andlega og líkamlega.

 

6. Þegar ég horfi á fólk gera Pilates-æfingar finnst mér eins og áreynslan sé ekki nógu mikil fyrir mig. Fæ ég almennilega líkamsrækt út úr Pilates?

 

Þegar fólk byrjar að stunda Pilates þarf líkami flestra að tileinka sér mikið af nýjum upplýsingum. Pilates er þess vegna fjarri því að vera í ætt við eróbikktækni framan af, en það getur breyst eftir að komið er á millistig og framhaldsstig, þegar hreyfingarnar fara að verða kunnuglegri. Þar að auki sameinar Pilates teygjur og styrkingu – þar sem gormar og eigin líkamsþungi er notað sem mótstaða – á þann hátt að það kann að virðast auðveldara en önnur æfingakerfi, en staðreyndin er sú að áreynslan er meiri og nær dýpra inn í vöðvana.

 

7. Ég hef oft orðið fyrir meiðslum og líkamlegum áföllum um ævina.  Getur Pilates hjálpað mér?

 

Já! Til eru margar sögur af því hvernig Pilates-æfingakerfið hefur hjálpað fólki að ráða bót á gömlum og nýjum meiðslum. Pilates-leiðbeinendur hafa haft samstarf við sjúkraþjálfara og kírópraktora, sem hafa liðsinnt við meðferð meiðsla í mjúkvefjum og hjálpað fólki að ná sér af margvíslegum líkamlegum vandamálum.

 

8. Ætti ég að fara í einkatíma?

 

Já! Fólk með rétta og góða þjálfun í Pilates hefur lært að greina og skilja sérstöðu hvers mannslíkama, réttar hreyfingar og rétta líkamsstöðu. Það hefur lært að greina ójafnvægi í vöðvum, sem getur verið sprottið af einhæfum hreyfingum, meiðslum eða öðrum aðferðum í líkamsrækt, og kann að leiðrétta þetta ójafnvægi. Það er þess vegna sem Pilates er skilar svo góðum árangri!Kennari sem kennir í hóptímum hefur ekki möguleika til að greina og leiðrétta á sama hátt, né heldur að þróa sérstakt æfingaprógramm fyrir hvern og einn.

 

9. Hvernig fer ég að því að finna hæfan Pilates-kennara?

 

Það verður sífellt erfiðara að finna góða kennara. Til ársins 1998 var „Pilates“ skráð vörumerki í eigu hins upprunalega Pilates Studio™ í New York. Þeir einir sem höfðu sótt yfirgripsmikið þjálfunarnámskeið máttu nota heitið Pilates yfir æfingakerfi sín. 

 

Því miður gerðist það svo árið 1999 að Pilates Studio™ í New York missti einkaréttinn á „Pilates“-vörumerkinu og nú getur í rauninni hver sem er í Ameríku notað heitið „Pilates“ til að lýsa æfingakerfi sínu – það útskýrir hina skyndilegu Pilates-bylgju sem reis árið 2000.

 

Meðan Joe Pilates lifði krafðist hann þess að nemendur sínir stunduðu nám í 10 ár áður en þeir tækju til við að kenna hina miklu aðferðafræði hans. Nú þykjast einhverjir geta útskrifað kennara eftir tveggja vikna nám!

 

Til að njóta kosta hins eina sanna Pilates-kerfis er best að vera hjá kennara með réttindi frá viðurkenndri Pilates-æfingastöð þar sem þjálfunarnám er traust. Þess vegna er rétt að spyrja þjálfarann hvaða kröfur hann/hún hafi þurft að uppfylla til að öðlast réttindi og hver sé bakgrunnur hans/hennar í Pilates sérstaklega, ekki aðeins í dansi, jóga eða annarri þjálfun. Varast skal fólk sem staðhæfir að það sé með réttindi í „Pilates-gólfæfingakerfi“ eða kenni „æfingar byggðar á Pilates“ þar sem það hefur ekki hlotið fullkomna þjálfun eða reynslu í upprunalegri Pilates-aðferð. 

bottom of page